26.2.2007 | 17:57
Faðir allra krata
Nú er framundan ein suðurferðin. Að morgni 7. mars fljúgum við Fjóla suður og líklega verða þær nöfnur með, þá um morguninn mæti ég svo í segulómun. Mér er ekkert sérlega rótt en hef þó enga ástæðu til að búast við slæmri skoðun. Mér gengur held ég bara nokkuð vel í endurhæfingunni. Sjónin er svo sem alltaf að plaga mig hvort sem það er merki þess að maddama Krabb sé að hrekkja mig. Ég held að það sé ekki ástæðan.
Ég fæ alltaf góða gesti í heimsókn. Og sé hverjir eru vinir í raun. Það er athyglisvert. Mér þykir sérlega vænt um hvað Eskfirðingar hafa verið ræktarlegir við okkur. Hafi þeir sem haft hafa tíma til að sinna vesaling mínum heila þökk.
Íslenskir fjölmiðlar geðu stólpagrín að Turkmenum fyrir dýrkun þeirra á forseta landsins sem sofnaði til feðra sinna fyrir skömmu. Sá heiðursmaður lét kalla sig föður allra Turkmena, síðan var það sem hann lét frá sér fara skyldulesning. En trúlega er rétt að hætta að gera grín að Turkmenum. Frelsari er fæddur hann kom fram í Hafnarfirði og heitir Jón Baldvin. Þeir sem nutu þess fagnaðar að heyra predikun hans um atvinnumál í Hafnarfirði vilja að fagnaðarerindið verði sent á hvert heimili og verði þar væntanlega skyldu lesning.
Hver verður framtíð hins vinnandi manns á Íslandi. Þegar komnir verða tl valda menn sem skilja ekki þörf almennings til vinnu. Ísland er auðugt að náttúrugæðum. Það getur fóstrað þjóðina þannig að engir þurfa að líða skort. Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn breyti um stefnu því hörð markaðshyggja leiðir til ójafnaðar. Ég treysti þó Sjálfstæðisflokknum einum til að framkvæma jöfnuð af réttlæti. Ég hef í legunni horft mikið á umræður af þingi og orðið fróðari um þá sem þar véla um. Eftir að hafa metið Steingrím J. Sigfússon mikils sem stjórnmálamann, varð mér það á að heyra hann fjalla um atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Þar tók hann fyrir áform Húsvíkinga, Hafnfirðinga, Reyknesinga og Þorlákshafnarbúa um uppbyggingu orkufreks iðnar. Steingrímur skaut allar þessar hugmyndir út af borðinu, en komu þá ekki nýjar og ferskar hugmyndir? Ekki man ég eftir einni einustu! Mun þessi maður stjórna atvinnumálum íslendinga næstu árin? Hann mun þar njóta hins ráða góða Jóns Baldvins föður allra krata.
Um bloggið
Hrafnkell Jónsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.